Sérfræðisetur í ævilangri náms- og starfsráðgjöf

1.jpg

Rafræn ráðgjöf; möguleikar og markmið

Smellið á mynd til að nálgast skýrslu um námskeið í rafrænni ráðgjöf

Nú er hægt að nálgast skýrslu af námskeiði um rafræna ráðgjöf með þeim Jim Sampson og Raimo Vuorinen.

Hægt er að smella á myndina hér fyrir ofan til að nálgast skýrsluna. 

 

Raddir fullorðinna notenda náms- og starfsráðgjafar á Norðurlöndum

Niðurstöður norrænnar rannsóknar í náms- og starfsráðgjöf meðal fullorðinna hafa verið birtar í skýrslu sem ber heitið Voice of users: Promoting quality of guidance for adults in the Nordic countries. Markmiðið með rannsókninni er m.a. að kanna að hvaða marki notendurnir eru virkir þátttakendur í þróun náms- og starfsráðgjafar fyrir fullorðna á Norðurlöndum. Í rannsókninni er einnig leitað svara við því hvaða áhrif ráðgjöfin hefur á þá sem notfæra sér hana.

Nálgast má skýrsluna með því að smella á myndina hér að ofan.

Upplýsingaveita 
um nám og störf

SÆNS fékk styrk Starfsmenntaráðs til að gera þarfagreiningu og framkvæmdar- áætlun um upplýsingakerfi og vefráðgjöf um nám og störf. Smellið á myndina til að nálgast skýrsluna.

Frekari upplýsingar um verkefnið má finna hér.


Lög og reglur
Sérfræðisetur í ævilangri náms- og starfsráðgjöf
 
Reglur 

1. gr.

Almennt

Sérfræðisetur í ævilangri náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands er hluti af Félagsvísindastofnun samkvæmt 3. tölul. 4. mgr. 27. gr. reglna nr. 458/2000 um Háskóla Íslands og 4. gr. Reglna nr. 370/2009 um Félagsvísindastofnun.

 

2. gr.

Hlutverk

Hlutverk Sérfræðiseturs í ævilangri náms- og starfsráðgjöf er að auka og efla rannsóknir á sviði náms- og starfsráðgjafar með sérstakri áherslu að meta árangur af náms- og starfsráðgjöf og þróa leiðir í náinni samvinnu við vettvang til að bæta þjónustu náms- og starfsráðgjafa við ungt fólk og fullorðna m.a. með því að:

 

a)     eiga frumkvæði að og sinna rannsóknum 

b)     sinna rannsóknartengdum þjónustuverkefnum 

c)     efla tengsl rannsókna og kennslu á sviði náms- og starfsráðgjafar

d)     taka að sér verkefni fyrir aðila utan sem innan Háskóla Íslands, hafa samstarf við innlendar stofnanir, fyrirtæki og samtök og leita eftir samstarfi við erlenda fræðimenn og stofnanir á skyldu sviði.

e)     veita nemum í rannsóknanámi aðstöðu og búnað til rannsóknastarfa og veita nemum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að vinna rannsóknarstörf á vegum stofunnar eftir því sem unnt er

f)     kynna niðurstöður rannsókna m.a. með útgáfu fræðibóka og -greina, gangast fyrir fræðilegum námskeiðum, fyrirlestrum, málþingum og ráðstefnum

g)     vera ráðgefandi og taka þátt í almennri umræðu um náms- og starfsráðgjöf í samfélaginu

h)     eiga samstarf um stefnumótun í ævilangri náms- og starfsráðgjöf við ráðuneyti og stofnanir á vegum ríkis- og bæjarfélaga sem koma að ævilangri náms- og starfsráðgjöf, ásamt samstarfi við erlendar stofnanir um ævilanga náms- og starfsráðgjöf. 

 

3. gr.

Aðstaða

Félagsvísindastofnun lætur stofunni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað, eftir því sem kostur er.

4. gr.

Stjórn

Stjórn stofunnar er skipuð fjórum aðilum. Þeir eru umsjónarkennari í náms- og starfsráðgjöf í félags- og mannfræðideild og er hann formaður, fulltrúi frá Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands, fulltrúi frá Félagi náms- og starfsráðgjafa og forstöðumaður Félagsvísindastofnunar.

 

5. gr.

Stjórnarfundir

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega eða í tölvupósti með þriggja daga fyrirvara. Í fundarboði skal greint frá dagskrá fundar. Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum. Halda skal gerðarbók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Stjórnin skal halda a.m.k. einn fund á hverju misseri.

6. gr.

Verkefni stjórnar

Stjórnin tekur allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofuna og setur henni frekari starfsreglur. Stjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofunnar. Stjórnin ber ábyrgð á fjármálum stofunnar gagnvart Félagsvísindastofnun og forseta félagsvísindasviðs. Stjórninni er heimilt að ráða forstöðumann eða aðra starfsmenn eftir því sem ástæður og efni gefa til.

 

7.gr.

Fjármál

Setrið hefur sjálfstætt fjárhald en reikningshald þess skal vera hluti af reikningshaldi Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Fjárhagsáætlanir og uppgjör skulu kynnt forseta félagsvísindadeildar og stjórnarformanni Félagsvísindastofnunar.